Hvernig hjálpa skal kettinum að léttast

20.9.2018
Sífellt stærri hluti kattastofnsins um allan heim er talinn þjást af offitu, og glímir þar af leiðandi við margvísleg langtímaheilsufarsvandamál. Svona getur þú hjálpað kettinum þínum að léttast og fara að lifa heilbrigðari lífsstíl.
Adult Russian running outside on long grass.

Offita er alvarlegt vandamál hjá kattastofninum, og fellur til dæmis einn af hverjum fjórum köttum í Bretlandi undir þá skilgreiningu. Það getur haft alvarleg áhrif á langlífi þeirra og almenna heilsu. Með réttri fóðrunaráætlun til að ná fram þyngdartapi geta hins vegar 80% - 90% katta komist í kjörþyngd sína.

Rétt mataræði til að hjálpa kettinum þínum að léttast

Þyngdartapsmataræði fyrir köttinn þinn byggist á þremur meginreglum: draga úr kaloríumagninu sem innbyrt er, stjórna hungurtilfinningunni á meðan mataræðið er gefið og aðlaga magn nauðsynlegra næringarefna til að koma jafnvægi á heildarblönduna. Þetta hjálpar til við að tryggja að kötturinn þinn fái mataræði í réttu jafnvægi, að hann sé vel mettur og að dregið sé úr orkumagninu sem hann fær.

Að gefa kettinum þínum bara minna af fóðrinu sem hann fær venjulega er ekki góð leið til að stýra þyngdartapi. Í sumum tilfellum gæti það jafnvel verið hættulegt fyrir köttinn, vegna þess að það leiðir til þess að kötturinn fái ekki nóg af nauðsynlegum næringarefnum.

Sérstakt þyngdartapsmataræði ætti að vera með hærra próteininnihald en hefðbundið mataræði kattarins til að viðhalda vöðvamassa og bæta upp minni skammtastærðir, auk þess að vera með lítið fituinnihald og mikið magn steinefna og vítamína. Þetta mataræði getur einnig nýtt virk næringarefni til að efla heilbrigða hreyfigetu liða auk þess að bæta ástand húðar og felds.

Nýjasta og þróaðasta sjúkdómsfæðið inniheldur sérstakar trefjablöndur og nákvæmar formúlur til að viðhalda mettunartilfinningunni hjá kettinum og minnka þar með líkurnar á að hann fari að sníkja, sem tryggir enn betri árangur við þyngdartapið.

Önnur leið til að hjálpa kettinum að tapa þyngd er að gefa honum nóg af hreinu vatni á nokkrum mismunandi stöðum víðsvegar um heimilið. Þetta tryggir að hann drekki nóg til að hjálpa meltingunni.

Adult cat sitting down indoors eating from a silver bowl.

Að kenna kettinum góðar matarvenjur

Það er lykilatriði að fylgja leiðbeiningum um skammtastærðir á fóðurpokanum eða leiðbeiningum frá dýralækni til að tryggja að kötturinn þinn léttist. Notaðu eldhúsvigt til að vigta fóðrið nákvæmlega. Samsetning þurrfóðurs er ólík og hugsanlegt er að algengasta kattafóðrið sé of orkumikið fyrir köttinn þinn, þá fær hann meiri orku en hann þarf úr fóðrinu. Þess vegna er best að vigta fóðrið og fylgja leiðbeiningum um skammtastærðir til að tryggja að kötturinn nái að léttast.

Ef kötturinn þinn er mjög lystugur og borðar meira en hann þarf skaltu skipta fóðrinu niður í nokkrar litlar máltíðir til að hafa stjórn á orkumagninu sem hann innbyrðir. Ekki gefa kettinum afganga frá matarborðinu þar sem slíkir aukabitar geta hæglega aukið verulega hitaeiningafjöldann sem hann innbyrðir. Ef þú gefur kettinum þínum aukabita, til dæmis í verðlaunaskyni, skaltu telja þá með í heildar fóðurmagni dagsins.

Dýralæknir getur sagt þér hversu hratt kötturinn þinn ætti að léttast en hann ætti ekki að léttast of hratt. Líkami kattarins gæti skynjað of snöggt þyngdartap sem vannæringu og það gæti leitt til alvarlegra lifrarsjúkdóma.

Að fá köttinn til að auka hreyfingu og léttast

Ef kötturinn er allt of þungur getur það reynst honum erfitt að leika sér. Með því að byrja smám saman að leika við hann þannig að hreyfing og leikur verði hluti af daglegu lífi, hjálpar þú kettinum þínum að brenna hitaeiningum.

Þú getur hvatt köttinn til að hreyfa sig innan dyra með því að setja upp leiksvæði fyrir hann og sjá til þess að hann hafi aðgang að leikföngum. Sjáðu til þess að kötturinn þinn hafi aðgang að klifurtré eða aðstöðu á nokkrum hæðum svo hann geti stokkið á milli og tyllt sér. Útvegaðu honum líka leikföng sem hann getur leikið sér með þegar þú ert að heiman. Leikföng með fóðri, þar sem kötturinn fær matarbita þegar hann leikur sér eru skemmtileg og þau örva líka eðlislæga veiðihvöt hans. Sé kötturinn of þungur er hæfilegt að byrja að leika við hann tvisvar sinnum á dag í tvær mínútur í senn og lengja tímann síðan smám saman eftir því sem hreyfigeta hans eykst.

Að viðhalda kjörþyngd

Þegar kötturinn þinn er orðinn léttari skiptir meginmáli að viðhalda kjörþyngdinni með heilbrigðum lífsháttum svo hann fari ekki aftur í sama farið. Þú getur viðhaldið réttu holdafari hans með því að vigta hann á sex mánaða fresti og grípa inn í ef hann er 5% umfram kjörþyngd. Þá getur þú breytt skammtastærðum og fóðri í samræmi við þyngdaraukninguna.

Þú ættir alltaf að nota sömu vigtina til að vigta köttinn þinn. Ef misræmi er í vigtun hans getur það orðið til þess að þú gefir honum of mikið eða lítið fóður meðan hann er að komast í kjörþyngd.

Köttur sem er í réttum holdum er bæði heilbrigðari og ánægðari. Ráðfærðu þig við dýralækni áður en þú byrjar að létta köttinn þinn. Dýralæknirinn getur sagt þér hver kjörþyngd kattarins er og getur einnig ráðlagt þér það fóður sem hentar honum best.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Maine Coon adult standing in black and white on a white background