Bólusetningar kettlinga

20.9.2018
Bólusetningar vernda heilsu kettlingsins þíns og þess vegna er mikilvægt að hann sé bólusettur á réttum aldri.
Kitten cat lying down on an examination table being given an injection.

Hvaða bólusetningar eru mikilvægastar fyrir kettlinginn minn?

Bólusetningar vernda heilsu kettlingsins þíns og þess vegna er mikilvægt að hann sé bólusettur á réttum aldri.

Ýmis bóluefni eru í boði og í grófum dráttum má flokka þau í tvennt:

  • Grunnbóluefni
  • Bóluefni sem ekki eru nauðsynleg

Mælt er með því að allir kettir og kettlingar fái grunnbóluefni, burtséð frá lifnaðarháttum þeirra. Hin bóluefnin má gefa ef kötturinn eða kettlingurinn er í hættu á að fá tiltekinn sjúkdóm eða tiltekna veiru.

Dýralæknirinn er best til þess fallinn að gera bólusetningaáætlun miðað við lífshætti kettlingsins þíns.

Hvaða grunnbólusetningar þarf kettlingurinn minn að fá?

Kettlingurinn þinn þarf að fá bólusetningu gegn eftirtöldum sjúkdómum:

  • Kattaflensu: Meinvaldar kattaflensu eru nokkrir og þar á meðal eru áblástursveira (fHV) og bikarveira (FCV). Kattaflensa leggst á augu, munn og öndunarveg.
  • Kattafársveiru (FPV): Þessi veira er oft banvæn. Hún veldur niðurgangi og uppköstum.
  • Hvítblæði í köttum (FeLV): Þessi veira veikir ónæmiskerfið þannig að sýktur köttur er viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum.

Dýralækninn þinn getur metið áhættuna og sagt þér hvenær best er að hefja bólusetningaferlið. Hann gerir bólusetningaáætlun miðað við kettlinginn þinn og þarfir hans.

Þarf kettlingurinn minn að fá sprautu um leið og hann kemur í heiminn?

Þegar kettlingar koma í heiminn njóta þeir góðs af mótefnum mömmu sinnar sem þeir fá með mjólkurbroddinum. Áhættusama tímabilið er þegar mótefni frá læðunni duga ekki lengur til að verja hann gegn veirusýkingum en eru samt enn nægilega sterk til að draga úr gagnsemi bólusetninga. Á þessu skeiði er kettlingurinn viðkvæmastur fyrir sýkingum.

Hvenær á kettlingurinn minn að fá fyrstu bólusetninguna?

Heppilegasti aldurinn fyrir fyrstu bólusetningu er þegar kettlingurinn er átta vikna (eða á bilinu sjö til níu vikna). Síðan ætti hann að fá seinni bólusetninguna þremur til fimm vikum seinna. Þetta á við um grunnbólusetningarnar.

Verður búið að bólusetja hann áður en ég fæ hann?

Þar sem mælt er með því að kettlingar séu bólusettir um átta vikna, er líklegt að hann hafi þegar fengið fyrstu bólusetninguna þegar þú tekur hann með þér heim. Mundu að fá bólusetningaskírteini hjá ræktandanum eða í athvarfinu og sýndu dýralækninum það þegar þú ræðir við hann um bólusetningaáætlun kettlingsins.

Kannar dýralæknirinn eitthvað áður en hann bólusetur kettlinginn minn?

Dýralæknirinn heilsufarsskoðar kettlinginn þinn ítarlega og gengur úr skugga um að hann sé heilbrigður og vel á sig kominn áður en hann bólusetur hann. Það er mikilvægt að þú látir dýralækninn vita ef þú hefur tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari kettlingsins. Það gæti verið allt frá þreytu til tilfallandi niðurgangs.

Hvenær getur kettlingurinn minn farið út?

Kettlingurinn er ekki fullbólusettur fyrr en eftir endurbólusetninguna. Dýralæknirinn getur sagt þér hvenær þér er óhætt að hleypa honum út. Þangað til skaltu halda honum innan dyra.

Þarf kettlingurinn minn að fara í endurbólusetningu?

Það þarf að endurbólusetja gegn kattaflensu, kattafársveiru og hvítblæði þegar kettlingurinn er 12 til 16 vikna.

Frá og með eins árs aldri ætti dýralæknirinn að endurbólusetja köttinn þinn árlega gegn þessum veirum.

Lestu um endurbólusetningar kettlinga og sjáðu hvaða bólusetningar kettlingurinn þinn þarf að fá og hvenær.

Hvaða aðrar bólusetningar gæti hann þurft?

Dýralæknirinn gæti ráðlagt þér að bólusetja gegn hundaæði. Hvort sú bólusetning er nauðsynleg eða ekki fer eftir lífsháttum kettlingsins þíns og hvort þú hyggst ferðast með hann til útlanda. Ef þú ætlar að ferðast með hann til landa innan Evrópusambandsins er hundaæðisbólusetning skilyrði.

Eitt af því mikilvægasta sem þú gerir til að vernda heilsufar kettlingsins þíns er að sjá til þess að hann fái alla ævi réttar bólusetningar á réttum tíma.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir kettlinginn þinn

Næringarríkt fóður sem styrkir náttúrulegt varnarkerfi kettlingsins og stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska meltingarfæranna.

Content Block With Text And Image 1