Er hundurinn minn of þungur?

20.9.2018
Það er lykilatriði að hundurinn þinn sé í kjörþyngd til að viðhalda lífsþrótti og lífsorku en hvernig veistu hvort þyngdin er orðin áhyggjuefni?
Adult Golden Retriever lying down inside on a blue dog bed.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að í iðnríkjunum er að minnsta kosti einn af hverjum fimm hundum of feitur. Offita getur aukið líkur á sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, liðagigt og mörgum öðrum langvinnum sjúkdómum. Þess vegna skiptir höfuðmáli að fylgjast með þyngd hundsins og bregðast við ef hann verður of þungur. Annars er hætt við að lífsgæði hans minnki og heilsufarið verði bágborið.

Hversu líklegt er að hundurinn minn verði of þungur?

Nokkrir þættir geta aukið líkurnar á að hundurinn þyngist of mikið og verði akfeitur. Hundar af sumum tegundum, til dæmis Labrador Retriever, eru líklegri en aðrir til að þyngjast of mikið. Smáhundar eru líka í mikilli hættu á að fitna of mikið.

Tíkum hættir frekar til að fitna og líkur á offituvandamálum aukast með aldrinum. Hundar sem voru akfeitir sem hvolpar eru líklegri til að verða of feitir á fullorðinsaldri heldur en þeir sem voru grannvaxnir eða í eðlilegum holdum sem hvolpar.

Ef hundurinn þinn hefur farið í ófrjósemisaðgerð eru tvöfalt meiri líkur á að hann þyngist of mikið. Ástæðan liggur í hormónabreytingum sem verða í kjölfar ófrjósemisaðgerða. Lífshættir hundsins þíns hafa líka áhrif. Ef hann er mikið innan dyra, fær afganga frá matarborðinu eða var ekki almennilega umhverfisþjálfaður sem hvolpur, er líklegt að tengsl hans við mat séu með þeim hætti að hann geti auðveldlega þyngst of mikið.

Adult black Labrador Retriever lying down outdoors in a garden.

Hvernig veit ég hvort hundurinn minn er of þungur?

Fyrsta skrefið er að þú áttir þig á að hundurinn þinn er of þungur. Með því að vigta hundinn reglulega, skrá niður þyngdina og mæta með hann í reglulegar læknisskoðanir, færðu betri sýn yfir holdafarið.

Dýralæknirinn getur sagt þér hver kjörþyngd hundsins þíns er miðað við tegund, kyn og aldur. Sé hundurinn þinn 15% - 20% yfir kjörþyngd telst hann vera of feitur. Sem dæmi má nefna að ef hundur sem á að vera 50 kíló er 60 kíló, telst hann vera of feitur.

Einföld leið til að kanna holdafar hundsins er að þreifa eftir rifbeinunum í gegnum feld og vefi. Ef þú finnur rifbeinin, án þess að þau séu útstæð, er hundurinn í réttum holdum. Ef þú finnur ekki fyrir rifbeinunum er hann of feitur.

Hvernig hegða of feitir hundar sér?

Hegðun hundsins getur sagt þér til um hvort hann er of feitur eða ekki. Hann gæti verið daufur, orkulítill og áhugalaus um leik eða hreyfingu. Hann gæti verið andstuttur þegar þú ferð með hann í gönguferð og gæti jafnvel numið staðar til að hvíla sig, annað hvort af því hann finnur til eða er þreyttur. Svo fer aukið umfang auðvitað ekki milli mála.

Hundurinn þinn gæti sýnt óeðlilega hegðun í tengslum við mat. Hann gæti borðað yfir sig, betlað mat, vælt til að fá aukabita eða jafnvel sýnt harðfylgi þegar þú borðar. Áður en þú byrjar að vinna að því að koma hundinum þínum í kjörþyngd mun dýralæknirinn spyrja þig um fóðurvenjur hans. Þá skiptir máli að svara af hreinskilni en stundum stuðla eigendur óafvitandi að offitu hundanna sinna með því að gefa þeim aukabita eða afganga frá matarborðinu.

Offita hunda er alvarlegt vandamál en hægt er að bæta úr því með breyttum venjum og ekki síst fóðurvenjum. Gættu þess að mæta með hundinn í reglubundnar dýralæknaskoðanir. Dýralæknar fylgjast með þyngd hundsins og þú getur einnig rætt við þá ef þú tekur eftir breyttri hegðun hundsins sem gæti bent til þess að hann væri of þungur.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russel Terrier adult standing in black and white on a white background