Merki um að hundurinn þinn sé að eldast

20.9.2018
Öldrun er náttúrulegt og margbrotið ferli sem getur falið í sér hrakandi líkamsstarfsemi. Ákveðnir þættir eru merki þess að hundurinn þinn sé að verða öldungur.
Ageing Golden Retriever lying down in a garden.

Hundarnir eldast smám saman og öldrunareinkennin fara því stundum fram hjá eigandanum. Það er gott að hafa vakandi auga fyrir merkjum um öldrun og þeim breytingum sem hundurinn gengur í gegnum eftir því sem aldurinn færist yfir.

Öldrun hunda

Öldrun er náttúrulegt og margbrotið líffræðilegt ferli sem getur falið í sér hrakandi líkamsstarfsemi og aukna viðkvæmni fyrir sjúkdómum. Þótt öldrun sé vissulega óhjákvæmileg, eru til leiðir sem hægja á henni eða flýta í það minnsta ekki fyrir henni. Mestu skiptir að koma í veg fyrir eða fresta því að hundurinn fái sjúkdóma, í þeim tilvikum sem það er mögulegt. Einnig að greina sjúkdóma sem upp koma eins fljótt og auðið er og meðhöndla þá af festu til að hundurinn lifi eins heilbrigður og lengi og mögulegt er. Forvarnarlækningar eru æskilegastar.

Hvenær telst hundur aldraður?

Aldur er tala en ekki ástand. Hugtökin fullorðinn og aldraður miðast við lífslíkur. Hundur telst vera fullorðinn þegar hann er á miðjum aldri miðað við lífslíkur og öldungur þegar hann hefur lifað þrjá fjórðu hluta ævinnar miðað við lífslíkur. Hundar eldast á mismunandi hratt og með ólíkum hætti eftir því hvort þeir eru stórir eða litlir. Meðalaldur smáhunda er hærri en meðalaldur hunda af stórum tegundum og því eldast smáhundarnir hægar.

Það kann að skjóta skökku við að stóru hundarnir sem eru lengur að ná fullum líkamlegum þroska skuli eldast hraðar en smáhundar. Það sýnir svo ekki verður um villst að þarfir hunda eru ólíkar.

Áhrif öldrunar á líkamann

Öldrun er náttúrulegt ferli sem hefur áhrif á allan líkamann. Ekkert líffæri er undanskilið. Líffæri eru misjafnlega viðkvæm fyrir sjúkdómum og því er það einstaklingsbundið hve miklar líkur eru á að hundur fái tiltekinn sjúkdóm. Það er mikilvægt að skilja öldrunarferlið til að hægja á öldrunareinkennum.

Fituforði eykst

Hundar hafa tilhneigingu til að fitna þegar þeir eldast. Dýr byggja upp fituforða á kostnað vöðva. Þegar vöðvar rýrna, minnkar hreyfigetan og sömuleiðis orkuþörfin. Þar af leiðandi þyngist hundurinn meira, missir meiri vöðvamassa og þannig koll af kolli. Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með líkamlegu ástandi hundsins til að koma í veg fyrir að hann þyngist of mikið og verði vöðvarýr. Ennfremur þarf að gæta þess að verkir komi ekki í veg fyrir að hann geti hreyft sig eðlilega.

Ageing Weimaraner walking outdoors on a grassy footpath.

Tannvandamál

Ef tannsteinn safnast utan á tennurnar veldur hann tannholdsbólgum og sýkingum með þeim afleiðingum að hundurinn getur misst tennurnar. Tannholdssjúkdómar valda því að það er sársaukafullt og erfitt fyrir hundinn að borða.

Óþægileg andremma fylgir þessu ástandi og mikil fjölgun baktería sem dreifist um líkamann getur haft skaðleg áhrif á önnur líffæri. Stöðugt álag verður á ónæmiskerfinu. Það veldur miklu álagi á líkamann og fyrir vikið verður hundurinn viðkvæmari fyrir sýkingum.

Það er mikilvægt að sinna tannhirðu hunda alla ævi og einkum þegar þeir eldast. Forvarnirnar felast í því að byrja að bursta tennurnar frá hvolpsaldri. Þá haldast tennurnar heilbrigðar og sterkar alla ævi. Fóður er mikilvægur þáttur í tannheilbrigði. Samsetning og útlit fóðurkúlnanna, stærð, lögun og harka, getur hægt á myndun tannsteins.

Hægari hreyfing meltingarinnar

Það hægist á meltingunni með aldrinum. Ástæðan er sú að vöðvamassi í þörmunum minnkar og sömuleiðis framleiðsla meltingarvökva en hann gegnir mikilvægu hlutverki við að brjóta niður fæðuna. Hundurinn á þess vegna frekar á hættu að fá hægðatregðu og síðan niðurgang í kjölfarið. Hægt er að ná tökum á þessum vanda með réttu fóðri.

Með aldrinum hægist á þarmastarfsemi eins og annari líkamsstarfsemi. Þarmarnir sjá ekki eins vel um meltinguna, upptaka næringarefna minnkar og það tekur lengri tíma að aðlagast nýju fóðri. Hágæða fóður sem er auðmeltanlegt dregur verulega úr þessum áhrifum.

Ónæmiskerfi og skilningarvit

Með aldrinum veikist ónæmiskerfið líka sem þýðir að gömlum hundum er hættara við að fá sjúkdóma og sýkingar. Auk þess geta sjón og lyktarskyn daprast með þeim afleiðingum að matarlyst minnkar.

Það er mikilvægt að sjá til þess að hundurinn hreyfi sig, líka þegar ellin færist yfir. Ef dýr hreyfir sig minna en áður, er ekki jafn vökult eða óvenju hljóðlátt, er rétt að fara með það til dýralæknis. Það skiptir höfuðmáli að greina á milli öldrunareinkenna sem eru óhjákvæmileg og sjúkdómsástands vegna skertrar líffærastarfsemi.

Með réttri umönnun og fóðri sem er sérsniðið til að mæta þörfum aldraðs hunds, getur hann lifað góðu og heilbrigðu lífi. Ef þú ert í vafa um hvernig þú átt að fóðra gamla hundinn þinn eða annast hann, skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Efst á síðu