Áhættuþættir hunda sem þjást af offitu

20.9.2018
Að minnsta kosti 20% hunda í iðnríkjunum teljast þjást af offitu, sem hefur veruleg og langvarandi heilsufarsleg áhrif. Kynntu þér þessa áhættuþætti frekar í þessari grein og sjáðu hvernig þú getur hjálpað hundinum þínum.
Adult dogs running through a field of long grass

Offita er vaxandi vandamál meðal mannfólks og því miður gildir það líka um hunda. Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að a.m.k. fimmti hver hundur í iðnríkjunum fellur undir skilgreininguna á offitu. Ef hundurinn þinn er of feitur, er honum hættara við að fá fjölda langvarandi og ævilangra sjúkdóma sem mikilvægt er að vita af.

Líkur hundsins þíns á að þjást af offitu

Hundur fellur undir offituskilgreininguna þegar hann mælist á bilinu 15% til 20% yfir kjörþyngd, eða þegar ómögulegt er að finna fyrir rifbeinum hans í gegnum húð, feld og líkamsvefi. Fjölmargir þættir hafa sitt að segja varðandi það hversu líklegt er að hundurinn þinn verði of feitur. Þar á meðal má nefna hundakyn hans, erfðauppbyggingu, aldur, kyn, lífsstíl, mataræði og hvort hann hefur verið vanaður eða ekki.

Til dæmis er tíkum hættara við að þyngjast, auk þess sem offita er tvöfalt líklegri hjá hundum sem hafa verið vanaðir heldur en þeim sem hafa ekki verið það. Hegðunarvandamál sem tengjast mat og þínar eigin matarvenjur hafa einnig umtalsverð áhrif á þyngd hundsins þíns.

Hættan á offitu hjá hundum

Ef hundurinn þinn er í yfirþyngd eða þjáist af offitu er honum hættara við að fá fjölda alvarlegra sjúkdóma sem geta haft veruleg áhrif á líf hans:

  • Verulega skertar lífslíkur
  • Hjarta- og öndunarerfiðleikar
  • Sykursýki
  • Minnkað ónæmi sem leiðir til aukinnar hættu á sýkingum og öðrum veikindum
  • Slitgigtarsjúkdómar á borð við liðagigt
  • Hjarta-og æðasjúkdómar
  • Nýrnasteinar

Hundar sem eru of feitir eru einnig líklegir til að vera daufir, sinnulausir og orkulitlir og sýna lítinn áhuga þegar kemur að þjálfun, leik eða hreyfingu.

Adult Golden Retriever lying down on an examination table in a vets office.

Af hverju veldur offita hunda þessum vandamálum?

Þegar hundur þjáist af offitu fer líkami hans að geyma mat og næringarefni sem fitu vegna þess að hann notar minni orku við að leika sér eða hreyfa sig heldur en hann fær með mataræðinu. Þessi fita byrjar að síast inn í líffæri (svo sem lifrina) sem leiðir til að þau virka ekki eins vel. Fita fer einnig að „húða“ líffærin, sem setur meiri þrýsting á þau og dregur úr hæfni þeirra til að vinna vel. Til dæmis er meiri þrýstingur á slagæðar hjá of feitum hundi en heilbrigðum hundi, sem þýðir að hann er líklegri til að þjást af hjarta- og æðasjúkdómum.

Eftir því sem hundurinn fer að bera meiri þyngd utan á sér verður sífellt erfiðara fyrir hann að hreyfa sig; liðir hans verða sárari vegna þess að þeir eru ekki gerðir til að bera umframþyngd. Að lokum getur þetta orðið að vítahring þar sem hundurinn vill ekki hreyfa sig vegna þess að það er óþægilegt, en heldur áfram að borða sama mataræði og þyngist því meira, sem minnkar löngun hans til að hreyfa sig.

Hvernig á að hjálpa hundi í yfirþyngd?

Fyrsta skrefið til að hjálpa hundinum er að heimsækja dýralækninn, sem getur metið hversu mikið yfirþyngdarvandamál hundsins er og sagt þér hvað sé til ráða til að hjálpa honum að léttast. Það er mikilvægt að þú, sem eigandi, skuldbindir þig til að hjálpa hundinum að léttast. Í því felst að halda sig við stranga fóðrunaráætlun, forðast að gefa hundinum nammi og leifar af matarborðinu, og fylgjast vel með þyngd hans. Dýralæknirinn þinn mun geta mælt með fóðrunaráætlun sem byggist á megrunarmataræði sem hann skrifar upp á.

Með því að hjálpa honum að léttast muntu sjá hvernig hundurinn fer að lifa aftur heilbrigðari og virkari lífsstíl – auk þess sem hann fær tækifæri til að lifa lengur. Byrjaðu á að panta samráðsfund hjá dýralækninum, sem mun hjálpa þér með glöðu geði.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russel Terrier adult standing in black and white on a white background