Umönnun hundsins þegar líður að endalokunum

10.5.2021
Það er erfitt fyrir alla þegar líður að ævilokum hundsins þíns en með réttri umönnun og stuðningi getur þú gert síðustu æviárin ánægjuleg og þægileg.
Ageing dog standing outdoors with a woman

Það er mikilvægt að veita hundinum þá umönnun og aðstoð sem hann þarf á síðasta hluta ævinnar. Velferð hans og lífsgleði þurfa að vera í fyrirrúmi.

Hvaða vandamál geta hrjáð gamlan hund?

Með aldrinum hægir á líkamsstarfsemi hundsins, þar á meðal starfsemi líffæranna. Það hægir á frumuvexti og endurnýjun fruma. Fyrir vikið á líkaminn erfiðara með að gera við skaða sem verður og ná sér eftir veikindi.

Sjónin getur versnað hjá gömlum hundum ef þeir fá ský á auga (cataract), augnsjúkdóm sem í sumum tilvikum tengist sykursýki en hún getur herjað á aldraða og/eða of þunga hunda. Vanvirkni í skjaldkirtli er algengasti hormónasjúkdómurinn sem hundar fá. Hundar sem fá slitgigt geta misst hreyfigetuna vegna brjóskeyðingar og sjúkdóma í liðum. Gamlir hundar geta líka fengið heilabilun. Þá minnkar blóð- og súrefnisflæði til heilans og hegðun þeirra breytist.

Hvernig annast ég gamla hundinn minn?

Reglubundnar dýralæknaskoðanir eru lykillinn að því að greina aldurstengda sjúkdóma í tíma og sjá hundinum þínum fyrir bestu meðferðinni. Þú getur líka annast hundinn heima og hægt á þróun sjúkdómsins og einkennum hans með því að:

  • Gefa honum heilfóður með réttri samsetningu næringarefna og í réttum skömmtum
  • Viðhalda honum í kjörþyngd og fyrirbyggja sjúkdóma sem tengjast offitu
  • Baða hundinn reglulega, snyrta og bursta feldinn og sinna munn- og tannhirðu
  • Sjá til þess, með viðeigandi ráðstöfunum, að hann fái ekki sníkjudýr
  • Hreyfa hundinn reglulega þótt gönguferðirnar kunni að vera styttri en áður

Ageing dog lying down indoors on a red blanket.

Hvað ef gamli hundurinn minn þjáist?

Líkamlegt ástand eða banvænn sjúkdómur getur valdið hundinum þínum mjög miklum óþægindum og verkjum. Ef sú staða kemur upp, getur dýralæknir sýnt þér svokallaðan „lífsgæðaskala“ svo þú getir metið hversu þjáður hundurinn þinn er.

Tekið er tillit til sjö þátta á þessum skala og hann nýtist bæði þér og dýralækninum til að ákvarða hvernig umönnun hundsins verður best háttað. Meðal þess sem metið er, er hreinlæti, matarlyst, kæti, hreyfanleiki og hversu oft hundinum líður vel eða illa.

Þegar velferð hundsins og lífsgæði eru í fyrirrúmi þarftu að meta þá kosti sem eru í stöðunni. Líknandi meðferð getur komið til greina þar til yfir líkur. Í slíkri meðferð fær hundurinn læknismeðferð og verkjastillandi lyf til að bæta líðanina. Í henni getur falist efnameðferð eða næring gegnum slöngu ásamt nuddmeðferð, sjúkraþjálfun eða aðlögun heimilisins að ástandi hundsins.

Ef lífsgæði hundsins fara hratt versnandi og líðan hans er mjög slæm gætir þú viljað íhuga aðra möguleika í samráði við dýralækninn.

Hundurinn hefur verið félagi þinn og mikilvægur hluti af lífi þínu í mörg ár. Þegar líður að endalokunum er mikilvægt að hafa velferð hundsins í huga. Ræddu við dýralækninn um umönnun aldraða hundsins þíns og hvaða möguleikar eru í boði til að tryggja vellíðan hans.

Efst á síðu