Hvernig á ég að annast aldraða köttinn minn?

20.9.2018
Með réttu fóðri, læknisþjónustu og breytingum á heimilinu getur þú annast aldraða köttinn þinn vel og tryggt velferð hans.
Ageing cat lying down asleep on a cushion.

Hverju aldursskeiði fylgja bæði einstakar ánægjustundir og áskoranir, sérstaklega þegar kötturinn þinn eldist. Líkamlegar breytingar geta orðið upp úr tíu ára aldri og sömuleiðis breytingar á háttalagi. Þá þarftu að gera ráðstafanir á heimilinu og jafnframt gera breytingar á hreyfingu og fóðri. Með því móti styður þú köttinn þinn á síðasta æviskeiðinu.

Kettir verða að meðaltali 15 ára en það er ekki óalgengt að þeir nái 20 ára aldri sem samsvara 96 mannsárum. Líkamleg einkenni öldrunar koma yfirleitt í ljós þegar kettir verða um 11 ára og þá breytist næringarþörf þeirra líka.

Umhverfi gamla kattarins þíns

Þegar kötturinn þinn eldist geta liðir farið að gefa sig og hann getur fengið liðagigt. Hreyfigeta hans getur minnkað, hann kann að verða reikull í göngulagi og getur líka átt erfitt með að komast upp á uppáhalds staðinn sinn og niður af honum aftur.

Þú getur komið fyrir rampi eða tröppum þannig að hann komist á staði sem eru hátt uppi þar sem honum finnst gott að tylla sér. Þú getur líka gert bælið hans notalegra svo hann hvílist vel. Það er þægilegra fyrir aldraðan kött að nota grunnan kattakassa sem auðvelt er að komast í og úr.

Hann þarf að hafa gott aðgengi að fóðri, kattakassa og fersku vatni. Ef þú býrð á fleiri en einni hæð, getur þú haft fóður, vatn og kattakassa á hverri hæð til að auðvelda honum aðgengið. Þannig dregur þú úr álagi á hann. Þú ættir að varast að gera breytingar á daglegum venjum því ef hann er farinn að skerðast vitsmunalega, geta breytingar gert ástandið verra.

Hreyfing og snyrting aldraða kattarins þíns

Ef kötturinn hefur verki í liðum eða liðirnir eru orðnir viðkvæmir, hreyfir hann sig væntanlega minna og kemur síður þegar þú kallar á hann. Ef hann er með verki getur hann brugðist illa við þegar hann er tekinn upp. Aldraðir kettir geta fengið elliglöp sem valda því að þeir verða ófélagslyndir.

Það er þó mikilvægt að aldraði kötturinn þinn hreyfi sig svo hann haldist í kjörþyngd. Hann getur fengið hæfilega hreyfingu í leik. Ef þú leikur til dæmis rólega við hann á daginn þannig að hann þreytist, sefur hann hugsanlega betur.

Gamli kötturinn þinn er ekki jafn liðugur og þegar hann var yngri. Fyrir vikið á hann erfiðara með að snyrta sig almennilega og því er brýnt að þú burstir feldinn reglulega til að losa dauð feldhár og viðhalda húðinni heilbrigðri.

Ageing cat lying down indoors on bed covers.

Gamli kötturinn og mataræði hans

Lyktar- og bragðskyn kattarins dofnar með aldrinum og það getur valdið lystarleysi. Ef tennur eða tannhold angra hann, getur það líka valdið lystarleysi og þyngdartapi. Til að koma í veg fyrir þetta er hentugt að gefa gömlum köttum mjúkt og bragðmikið fóður þannig að þeir njóti þess að borða.

Gamli kötturinn þinn þarf að fá ákveðin næringarefni sem draga úr öldrunareinkennum og hægja á aldurstengdum sjúkdómum:

  • Glúkósamín, kondrótín súlfat og EPA/DHA ásamt þykkni úr grænkræklingi eykur hreyfigetu eldri katta og hefur góð áhrif á liðina
  • Andoxunarefni koma í veg fyrir skaða af völdum svonefndra sindurefna
  • Minna fosfór viðheldur heilbrigði nýrna og styrkir nýrnastarfsemina
  • Auðmeltanleg prótein auðvelda meltingu hjá eldri köttum Rófumauk hefur bakteríuörvandi áhrif og EPA/DHA viðheldur meltingarkerfinu heilbrigðu

Með gamla köttinn til dýralæknis

Þegar kötturinn þinn nær tíu ára aldri er ráðlegt að fara með hann til dýralæknis á sex mánaða fresti. Með því móti er hægt að greina sjúkdóma á frumstigi ef þeir koma upp. Ef þú tekur eftir því að kötturinn er óvanalega þyrstur eða hefur tíðari þvaglát en áður, ef hann á í erfiðleikum með meltingu eða hreyfingar, er öðruvísi í háttum en áður eða hefur hnúð einhvers staðar á líkamanum, skaltu strax fara með hann til dýralæknis þar sem þetta gætu verið merki um undirliggjandi sjúkdóma.

Með því að fylgja þessum einföldu ráðum getur þú annast köttinn þinn vel þegar hann eldist. Ef þú ert í vafa eða ef spurningar vakna, skaltu hafa samband við dýralækninn þinn.

Efst á síðu