Hvernig á að annast kettling eða kött

20.9.2018
Ýmsir þættir stuðla að velferð kattarins og með því að annast hann rétt frá fyrsta degi tryggirðu að hann sé heilbrigður og aðlagist vel nýja heimilinu.
Cat lying down on a scratching tree

Mikilvægir hlutir

Þegar þú kemur fyrst með köttinn heim þarftu ákveðna grunnhluti. Þar á meðal má nefna:

  • Körfur: Þær mynda þægilegt rúm þar sem kettlingnum eða kettinum líður vel og finnst hann öruggur. Hafðu hana ofar en í gólfhæð, helst á stað þar sem kettlingnum finnst hann öruggur, fjarri dragsúg eða svæðum með of mikilli umgengni.
  • Kattakassar: Hann þarf að vera nægilega djúpur, en þó ekki það djúpur að kettlingurinn eigi í erfiðleikum með að nota hann. Litla skóflu þarf að hafa til taks til að fjarlægja hægðirnar.
  • Vatnsskálar: Skál með hreinu vatni ætti alltaf að vera til taks fyrir köttinn. Vatnsbrunnar eru einnig góður kostur í stað skála vegna þess að köttum þykir sérstaklega gaman að hreyfingunni og hún hvetur þá til að drekka meira.
  • Matarskálar: Þú skalt bjóða upp á litla skál fyrir korn, nægilega langt frá vatnsskálinni til að koma í veg fyrir að hún óhreinkist. Annar valkostur er að vera með leikfang sem gefur fóður þegar kötturinn leikur með það. Það hentar sérstaklega fyrir ketti sem halda sig mest inni, því það veitir þeim andlega og líkamlega örvun auk þess að fullnægja náttúrlegu veiðieðli þeirra. Þegar byrjað er að nota slíkt fóðrunarleikfang er nauðsynlegt að hafa ákveðinn aðlögunartíma á meðan kötturinn lærir að nota það.
  • Kattatré: Aukabúnaður sem er bæði skemmtilegur og gagnlegur fyrir köttinn, því með kattatrénu getur hann klórað, klifrað og falið sig á öruggan hátt. Með því að veita kettinum útrás fyrir þessar eðlishvatir stuðlar þú enn frekar að aukinni velferð hans.

Mælt er með að þú fáir þér fleiri en einn af hverjum hlut og dreifir um heimilið til að bjóða nýja kettinum upp á valkosti og leyfa honum að finna rólegt rými fjarri gestum eða hávaða ef hann þarf á að halda.

Umhverfi

Umhverfið er mikilvægur þáttur í heilbrigði og velferð kattarins. Hagstætt umhverfi telst vera þar sem kötturinn fær örugga félagsmótun án teljandi vandamála og getur á þægilegan hátt vanist fólkinu og hlutunum í kringum sig.

Kötturinn mun byrja mjög ungur að skipuleggja og merkja yfirráðasvæði sitt. Þetta eru þau svæði þar sem hann mun sofa, leika, veiða, matast, fela sig, klifra og láta knúsa sig. Á heimilinu skipuleggur kötturinn líf sitt í kringum fjögur mismunandi svæði sem þú þarft að virða til að forðast hegðunarvandamál, sérstaklega hjá inniköttum.

  • Fóðrunarsvæði: Þetta verður að vera á rólegum svæðum, fjarri kattakassanum og þínu eigin matarsvæði. Best er að nota ekki borðstofuna eða svæði þar sem hann getur orðið fyrir truflun og gefa kettinum nóg pláss þegar hann snæðir.
  • Hvíldarsvæði: Þessi staður mun breytast yfir daginn og taka mið af sólarljósi og hitagjöfum. Það er í eðli katta að vilja sofa hátt uppi og mun kötturinn oft velja þann stað sem hentar honum best, svo þú skalt ganga úr skugga um að hann hafi fullt af lausu plássi til að velja úr.
  • Þrifsvæði: Kattakassinn verður að vera á rólegum stað sem kötturinn kemst alltaf að, fjarri matarskálinni og stöðum þar sem umgangur er mikill. Forðastu allt sem getur valdið streitu. Þekkt er að óþrifnaður verði af köttum ef kattakassi er settur nálægt þvottavél. Mælt er með að hafa að minnsta kosti einn kattakassa fyrir hvern kött, og einn til vara, til að hver köttur hafi næga valkosti og engin vandamál komi upp.
  • Leiksvæði: Þetta er stærsta svæðið fyrir daglegt líf og afslöppun kattarins. Þar þarf kötturinn að geta hlaupið um, falið sig eða klifrað hátt upp og horft yfir. Kattatré eru frábær aukabúnaður til að auðvelda slíkt og stuðla að auknu heilbrigði og velferð kattarins.

Hreyfing

Kettir sem halda sig innandyra þurfa að hafa mikið fyrir stafni til að fá næga andlega og líkamlega örvun. Það þýðir:

  • Fullt af leikföngum, sem skipt er út öðru hvoru til að þeir missi ekki áhugann, hlutir til að klifra á og fela sig í og reglulegir leiktímar með fjölskyldunni alla daga
  • Vegna þess að innikettir snyrta sig meira og hreyfa sig minna þurfa þeir, sérstaklega ef þeir eru síðhærðir, mataræði sem dregur úr myndun hárkúlna og er hannað fyrir ketti sem eru minna virkir
  • Skemmdirnar sem kettir geta valdið á húsgögnum eða veggjum eru ekki kærkomnar. Klór er hins vegar eðlislægt hjá köttum og því er mikilvægt að kötturinn þinn fái stað þar sem hann getur fengið útrás fyrir það. Gerðu ráð fyrir að koma upp að minnsta kosti einni klórustöng

Fóðrun

Hjá heimilisköttum er fóðurneysla háð nokkrum þáttum. Kettir vilja helst snæða í rólegu rými, úr augsýn og fjarri rándýrum, með augljósa flóttaleið.

Einungis hágæðafóður, sem er sérstaklega þróað fyrir ketti, getur tryggt að kötturinn fái öll þau næringarefni sem hann þarfnast til að haldast heilbrigður, óháð aldri, kyni, lífsstíl eða næmi.

  • Þótt fjölbreytt mataræði sé hollt fyrir fólk, eru miklar og stöðugar breytingar ekki góðar fyrir meltingu katta
  • Fóðurleikföng eru frábær leið til að veita kettinum andlega örvun, hvetja hann til að vinna fyrir matnum sínum og nota veiðieðlið
  • Veiðihegðunin hefur mikið að gera með það hvernig kettir borða og þess vegna hafa þeir tilhneigingu til að borða margar smærri máltíðir yfir daginn frekar en að borða sjaldan en mikið
  • Kettir hafa mjög mikla próteinþörf og þar á meðal þurfa þeir nokkrar nauðsynlegar tegundir amínósýra, eins og tárín, sem finnast einungis með náttúrulegum hætti í líkamsvef dýra
  • Fita er mikilvægur orkugjafi fyrir ketti og á hærra hlutfall daglegrar kaloríuinntöku þeirra að vera úr fitu heldur en ráðlagt er fyrir fólk
  • Kettir hafa mjög sérstaka þörf fyrir ákveðnar tegundir vítamína og steinefna, eins og t.d. D-vítamín, sem þeir geta aðeins fengið úr mataræðinu
  • Þegar köttur er nýgotinn er meltingarkerfið fullkomlega til þess fallið að melta mjólk fyrir kettlinga, en svo breytist geta meltingarkerfisins og þegar kötturinn er orðinn fullþroska er hann ekki lengur fær um að melta laktósa
Adult cat standing on a table being brushed by its owner.

Feldhirða

Feldhirða kattarins er ekki eingöngu til að hann líti vel út. Með því að bursta feldinn fjarlægir þú dauð hár sem þýðir að kötturinn innbyrðir ekki jafn mikið af hárum þegar hann snyrtir sig. Þetta hefur marga kosti, ekki síst í ljósi þess að kettir verja um 30% af tímanum í að snyrta sig. Fyrir vikið gleypa þeir mikið af hárum sem vefjast saman í hárkúlur innvortis og geta valdið meltingartruflunum.

  • Persneskum köttum og öðrum síðhærðum köttum þarf að greiða á hverjum degi. Það þarf að nota vandaða greiðu og greiða flækjur varlega úr feldinum.
  • Snögghærða ketti (eins og Siamese og Abyssinian) þarf yfirleitt ekki að greiða heldur nægir að strjúka lófanum þéttingsfast nokkrum sinnum yfir feldinn.
  • Mælt er með því að miðlungssíður feldur sé burstaður vikulega með mjúkum bursta. Það sama á við um ketti með þykkan undirfeld (eins og Maine Coon og Exotic Shorthair).

Tennur

Umhirða tannanna hefst á unga aldri kettlingsins.

  • Þegar þú færð kettlinginn þinn er hann enn með barnatennur. Þær eru viðkvæmar og þess vegna þarf kettlingurinn að fá mýkri fóðurkúlur en fullorðinn köttur.
  • Sumt blautfóður er með mjög góða áferð og er sérstaklega ætlað kettlingum með viðkvæmar tennur.
  • Tannburstun er lykillinn að tannheilbrigði og mælt er með því að þú notir tannbursta sem er sérstaklega ætlaður köttum og tannkrem frá dýralækni.

Heilsufar

Heilsa og velferð kattarins þíns felst í mörgum þáttum, allt frá lyfjum og bólusetningum í forvarnarskyni til gæludýratryggingar eða ófrjósemisaðgerðar. Ákveðinn kostnaður við kattahaldið takmarkast við eitt skipti en annan kostnað þarf að flokka sem föst útgjöld eins og fóður og feldhirðu.

  • Kettir eru reglulega bólusettir við kattafári, áblástursveiru og bikarveiru. Kettlingarnir eru bólusettir tvisvar í byrjun með þriggja til fjögurra vikna millibili. Hugsanlegt er að kettlingurinn hafi fengið þegar fyrstu bólusetninguna áður en hann kom til þín enda er hægt að bólusetja kettlinga í fyrsta sinn frá níu vikna aldri.
  • Örmerkingin er sársaukalaus. Örflögu er komið fyrir undir húð á hálsinum og geta allir dýralæknar og starfsmenn kattaathvarfa lesið örmerkið með sérstökum örmerkjalesara. Dýralæknirinn getur örmerkt köttinn þinn hvenær sem er
  • Það er mikilvægt að sjá til þess að kötturinn þinn fái hvorki flær, orma né mítla. Ábyrgur ræktandi byrjar að gefa kettlingum lyf gegn sníkjudýrum meðan þeir eru enn mjög ungir og í kattaathvörfum fá kettir líka meðferð gegn ormum og flóm. Það er mikilvægt að þú spyrjir ræktandann eða þann sem þú færð kettlinginn hjá hvaða meðferð hann hafi fengið
  • Ein stærsta spurningin sem gæludýraeigendur standa frammi fyrir er hvort á að gera ófrjósemisaðgerð á dýrinu eða taka það úr sambandi eins og oft er sagt. Kettir fara yfirleitt í ófrjósemisaðgerð upp úr sex mánaða aldri
  • Það skiptir máli að skipuleggja árlega heimsókn til dýralæknisins til að fyrirbyggja heilsufarsvandamál, fylgjast með þyngd og hvort breytingar hafa orðið á hegðun

Þjálfun

Kettlingar læra mest á fyrstu sex mánuðum ævinnar. Þar af læra þeir mest um hegðun á fyrstu þremur mánuðunum og eru læðan og gotsystkinin mikilvægustu leiðbeinendurnir á því sviði.

Þetta þýðir að þegar kettlingurinn kemur til þín er hann þegar búinn að læra helstu grundvallaratriði. Það firrir þig þó ekki ábyrgð. Þitt hlutverk er að fullmóta þjálfunina á nýja heimilinu og taka á óæskilegri hegðun.

Tryggingar

Tryggingafélög geta létt undir og gert þér kleift að veita kettinum þínum bestu mögulegu umönnun ef á reynir.

Tryggingavernd gæludýratrygginga getur verið misjöfn og sömuleiðis iðgjöldin sem geta farið eftir aldri kattarins, tegund, stærð eða búsetu.

Finndu bestu tryggingaverndina fyrir kettlinginn þinn með því að:

  • Leita á netinu og gera samanburð
  • Spyrja dýralækninn þinn
  • Skoða gæludýratímarit

Það getur virst yfirþyrmandi að undirbúa allt fyrir komu kattarins eða kettlingsins. Ef þú stendur vel að verki getur þú hjálpað honum að aðlagast nýja heimilinu og veitt honum ánægjulegt og heilbrigt líf.

Efst á síðu

Lesa meira um kattakyn

Leita að tegund

Skoða öll kattakyn
Maine Coon adult standing in black and white on a white background