Hvernig á að hjálpa kettlingnum að halda sér í formi

20.9.2018
Of mikil þyngdaraukning getur verið verulega slæm fyrir kettlinga, vegna þess að hún getur leitt til langtíma heilsuvandamála. Lærðu meira um hvað kettlingurinn þarf úr mataræðinu og hvernig þú getur hjálpað honum að halda sér í formi.
Kitten playing with a red ball

Fyrsta árið vex kettlingurinn hratt og þyngist eftir því sem beinagrind og vöðvar þroskast. Hins vegar er nauðsynlegt að þyngdaraukningin sé hæfileg vegna þess að offita getur valdið langvarandi heilsufarsvandamálum hjá köttum.

Hvað þurfa kettlingar úr mataræðinu?

Næringarþörf kettlinga er frábrugðin því sem fullorðnir kettir þurfa, vegna þess að þeir þurfa meiri orku til að sinna vexti líkamans. Eftir got fær kettlingurinn allt sem hann þarf úr móðurmjólkinni og þyngist stöðugt. Þegar þú byrjar að venja kettlinginn á fast fæði ættirðu að velja fóður sem veitir honum rétta blöndu nauðsynlegra næringarefna til að tryggja heilbrigði hans.

Áferð og lykt skipta meira máli fyrir kettlinginn en bragð vegna þess að hann hefur einungis 500 bragðlauka - til samanburðar er fólk með 9.000. Þess vegna skaltu velja mat sem er af þeirri lögun og viðkomu sem hentar ört stækkandi kettlingi. Gefðu kettlingnum ráðlagðan skammt fóðurs á hverjum degi, annað hvort með því að gefa hann í smærri skömmtum reglulega yfir daginn eða gefa allan skammtinn í einu og leyfa svo kettlingnum að stýra sjálfum hvernig hann borðar. Einnig er nauðsynlegt að veita honum hreint vatn og friðsælan stað til að snæða.

Fjölbreytni í mataræði er mikilvæg fyrir fólk, en það sama gildir ekki fyrir kettlinga. Þess vegna skaltu forðastu að gefa kettlingnum margar mismunandi matartegundir, t.d. matarleifar, vegna þess að slíkt gefur honum ekki endilega þau næringarefni sem hann þarfnast, getur leitt til þyngdaraukningar og stuðlað að slæmum matarvenjum eins og til dæmis að sníkja við matarborðið. Ef þú þarft að skipta um fóður skaltu gera það smám saman vegna þess að meltingarfærin eiga í erfiðleikum með að ráða við snöggar breytingar á mataræði.

Hvernig get ég stjórnað þyngd kettlingsins?

Auk þess að velja viðeigandi fóður fyrir kettlinginn getur þú stýrt þyngd hans með því að fylgjast vel með honum, sérstaklega fyrstu 12 mánuðina. Áður en kettlingurinn byrjar að borða fastan mat skaltu vigta hann á hverjum degi. Hann ætti að þyngjast jafnt og þétt og ef hann gerir það ekki ættirðu að ráðfæra þig við dýralækni til að sjá hvort þú þurfir að bæta honum það sem upp á vantar með kettlingamjólk.

Frá um það bil tveggja mánaða aldri skaltu vigta kettlinginn vikulega eða á tveggja vikna fresti til að kanna vöxtinn. Mesta þyngdaraukningin verður við fjögurra til fimm mánaða aldur, en þá þyngjast kettlingar að meðaltali um 100 grömm á viku.

Adult cat sitting down eating from a silver bowl.

Eftir að kettlingur fer að borða sjálfur skaltu fylgjast með honum og kanna hvort hann borðar hæfilegt magn eða hvort þú þarft að vera honum innan handar varðandi fóðurskömmtun. Kettir borða oft og lítið í einu, vanalega 15-17 litlar máltíðir á dag.

Settu dagsskammt af fóðri í skál og fylgstu með kettlingnum. Ef hann borðar lítið í einu og kemur mörgum sinnum á dag að fóðurskálinni, getur þú haldið áfram að setja dagsskammtinn í skálina einu sinni á dag. Ef hann á það hins vegar til að borða allan skammtinn í einu þarftu að skipta honum í nokkrar máltíðir og dreifa fóðurgjöfunum yfir daginn til að koma í veg fyrir ofát og sníkjur.

Við mat á fóðurskömmtum kettlingsins þarf að huga að lífsháttum hans. Ef kettlingurinn fer ekki út eða ef hann hefst einkum við á sama staðnum er orkuþörf hans minni en kettlingsins sem er meira á ferðinni. Kettir sem hafa farið í ófrjósemisaðgerð hafa tilhneigingu til að fitna því aðgerðin dregur úr orkuþörf þeirra en eykur á sama tíma matarlystina. Þetta getur leitt til þess að ónýtt orka safnist fyrir í formi fitu.

Þú getur dregið úr líkum á offitu hjá kettinum þínum með því að ráðfæra þig við dýralækni um heppilega skammtastærð fóðurs miðað við lífshætti kattarins. Einnig með því að hvetja köttinn þinn til athafna, annað hvort með því að leyfa honum að fara út eða leika við hann innan dyra.

Þótt hætta sé á að kettir verði of feitir, má koma í veg fyrir það með því að fóðra í samræmi við lífshætti. Ef þú ert ekki viss um fóðrun kattarins skaltu ráðfæra þig við dýralækni sem ætti að geta leiðbeint þér.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir kettlinginn þinn

Næringarríkt fóður sem styrkir náttúrulegt varnarkerfi kettlingsins og stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska meltingarfæranna.

Content Block With Text And Image 1