Útskýringar á næringarþörf hvolpa

3.10.2018
Mikill munur er á næringarþörf hvolpa annars vegar og fullorðinna hunda hins vegar. Skoðaðu hvaða næringarefni hvolpurinn þinn þarf nákvæmlega að fá á hverju þroskaskeiði fyrir sig.
Puppy Jack Russell sitting outside in grass by a large silver bowl.

Á fyrsta æviskeiðinu er næringarþörf hunds allt önnur en þegar hann fullorðnast. Í hvolpafóðrinu ættu að vera öll næringarefni sem hvolpurinn þinn þarf til að þroskast eðlilega og án þess að þú þurfir að gefa honum nokkuð annað en fóðrið.

Næring fyrir mánaðargamla hvolpa

Á þessum tíma þarf hvolpurinn að fá mikla hjálp við að byggja upp náttúrulegar varnir. Milli fjögurra og tólf vikna myndast svokallað ónæmisbil en á því tímabili minnka varnirnar sem hvolparnir fengu í móðurmjólkinni. Á þessum tíma er ónæmiskerfi hvolpa ekki fullmótað. Þeir geta fengið náttúruleg bætiefni úr fóðrinu, eins og E vítamín og B vítamín. Önnur efni eins og mannan-fásykrur (mannan oligasaccharides, MOS) styrkja „góðu bakteríurnar“ í meltingarkerfi þeirra sem oft og tíðum er viðkvæmt.

Tveggja mánaða hvolpar og næringarþörf þeirra

Þegar hvolpurinn þinn er tveggja mánaða ætti megin áherslan að vera lögð á beinvöxtinn. Þá eru kalsíum og fosfór í mikilvægum hlutverkum en þessi frumefni þurfa að vera í réttu magni í fóðrinu. Þau skipta miklu máli fyrir almennt heilbrigði hvolpsins, ekki síst þegar um er að ræða stóra hunda enda tengjast margir vöðvar og vefir beinunum, svokallaðir beinagrindarvöðvar.

Næring fjögurra mánaða hvolpa

Beinagrind hvolpsins þíns er enn að þroskast á þessum aldri svo hann þarf enn að fá rétt magn af kalsíum og fosfór og í réttum hlutföllum. Líkami hvolps undir sex mánaða aldri getur ekki stýrt því hversu mikið kalsíum er unnið úr fæðunni og því geta hvolparnir ekki varið sig gegn of miklu kalsíumi, sé því ofaukið í fóðrinu. Of mikið kalsíum getur valdið vansköpun beina svo það borgar sig að fara eftir leiðbeiningum varðandi skammtastærðir. 0,5 g af kalsíumi á dag fyrir hvert kíló líkamsþyngdar.

Puppy Jack Russell standing indoors on a wooden floor eating from a silver bowl.

Sjö mánaða hvolpar og næringarþörf þeirra

Nú er hvolpurinn þinn að byggja upp vöðvamassa svo hann þarf talsvert af próteinum. Þetta þurfa að vera rétt prótein, af góðum gæðum og auðmeltanleg svo líkaminn geti nýtt og endurnýtt amínósýrurnar, byggt upp heilbrigða vefi og öflugt ónæmiskerfi.

Ólíkt fullorðnum hundum, þurfa hvolpar hlutfallslega meira af próteinum en hitaeiningum, enda vaxa þeir hratt. Ef þeir fá ekki nægilegt prótein getur það bitnað á náttúrulegum vörnum þeirra og komið í veg fyrir eðlilegan þroska. Það getur einnig haft skaðleg áhrif á húð og feld. Gættu þess að gefa hæfilegt magn af fóðri svo gæludýrið þitt fitni ekki. Það er sérstaklega mikilvægt á þessum aldri.

Næringarþörf 10 mánaða hvolpa

Mjög litlir hundar (x-small) og aðrir smáhundar nálgast fullan vöxt um 10 mánaða gamlir meðan stærri hundategundir þurfa lengri tíma til að ná fullum vexti. Allir hundar þurfa sérstaka næringu á þessum aldri til að styrkja liðamót. Það er sérstaklega brýnt fyrir stóra og mjög stóra hunda enda vaxa vöðvar þeirra mikið á þessum aldri og álagið á beinin eykst í samræmi við það. Glúkósamín og kondróitín eru afar mikilvæg næringarefni fyrir brjóskið og brjóskvökvann sem tryggir eðlilega starfsemi liðanna. Ef hvolpur fær ekki þessi efni, getur það valdið vandamálum í liðum á fullorðinsaldri.

Fullorðnir hundar og næring

Þegar hundurinn þinn er orðinn fullorðinn þarf hann að fá vel samsett fóður svo hann verði ekki of þungur. Talið er að yfir fjórðungur hunda sé of þungur. Það veldur álagi á bein, liði og líffæri auk þess að minnka lífsgæði hundanna. Ef þú gefur hvolpinum þínum rétt fóður, með réttri samsetningu næringarefna, á mikilvægasta vaxtarskeiði hans og fylgir ráðleggingum um fóðurmagn, eru mestar líkur á að hundurinn verði heilbrigður og hamingjusamur á fullorðinsárum.

Ef þú ert í vafa um hvernig best er að fóðra hvolpinn miðað við þroskaskeið hans, skaltu ræða við dýralækninn og fá ráðleggingar hjá honum.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn

Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.

Content Block With Text And Image 1