Algeng meltingarfæravandamál hjá köttum

20.9.2018
Kynntu þér algeng meltingarfæravandamál sem geta hrjáð köttinn þinn, allt frá bólgum til sníkjudýra. Lestu einnig um einkenni sem gott er að vera á varðbergi fyrir.
Adult cat sitting down outside in a garden next to a silver bowl.

Ef stöðugleiki ríkir í bakteríuflórunni í meltingarfærum kattarins, virka þau sem skyldi. Breyting á fóðri, of mikil snyrting eða meltingarfærasjúkdómar geta komið ójafnvægi á bakteríuflóruna og valdið algengum vandamálum sem þó er hægt að leysa.

Hver eru einkenni meltingarfæravandamála í köttum?

Það borgar sig að fylgjast með ákveðnum einkennum ef þú heldur að kötturinn þinn hafi meltingarfæravandamál:

  • Hann kastar upp hárum sem hafa safnast fyrir og myndað kúlu innvortis.
  • Andremma
  • Niðurgangur eða hægðatregða
  • Hann er tregur að borða eða á erfitt með að borða
  • Þyngdartap eða kviðverkir

Ef þú sérð þessi einkenni hjá kettinum þínum skaltu fara með hann til dýralæknis eins fljótt og auðið er svo hægt sé að greina vandamálið og sjá kettinum fyrir viðeigandi læknismeðferð

Sníkjudýr og meltingarstarfsemi kattarins þíns

Sníkjudýr valda oft meltingartruflunum hjá köttum. Þessar agnarsmáu lífverur geta valdið alvarlegum niðurgangi og óþægindum í maga. Fyrir vikið getur kötturinn orðið fyrir vökvatapi og lést.

Til eru margar tegundir af innvortis sníkjudýrum. Tvær algengar tegundir sem herja á ketti eru: Giardia sem lifir í smáþörmum kattarins og coccidia sem hann getur gleypt um leið og hann bítur í bráð sem hann hefur veitt. Síðarnefnda sníkjudýrið getur einnig borist í menn.

Líklega ávísar dýralæknirinn lyfi sem hreinsar köttinn af þessari óværu.

Adult cat lying down indoors on a carpet.

Kötturinn þinn og hárkúlur

Hárkúlur valda oft meltingartruflunum hjá köttum, ekki síst inniköttum og þeim sem lifa rólegu lífi enda er feldsnyrting helsta viðfangsefni þeirra.

Hárkúlur myndast þegar hárin, sem kötturinn sleikir, safnast saman í meltingarveginum. Venjulega skila hárin sér í hægðum kattarins en ef hann gleypir of mikið af hárum nær hann ekki að melta þau og þá vefjast þau saman í hárkúlur.

Ef kötturinn þinn á erfitt með að borða eða kyngja gæti hann verið með hárkúlur í meltingarveginum. Stundum kasta kettir þessum hárkúlum upp. Líkur á að þetta gerist minnka ef þú burstar feldinn reglulega og losar dauðu feldhárin. Rétt trefjaefnablanda kemur líka að gagni því hún aðskilur hárin svo þau ganga betur niður af kettinum.

Bólgusjúkdómar í kettinum þínum

Ef eitt eða fleiri líffæri í meltingarvegi kattarins þíns bólgna, fær hann meltingartruflanir og þá getur fóðrið valdið innvortis ertingu.

Þrjú líffæri sem tilheyra meltingarfærunum liggja mjög nálæg hvert öðru, lifrin, briskirtillinn og smáþarmarnir. Fyrir vikið geta bólgur auðveldlega dreifst milli líffæra. (Ath: Orsökin er óþekkt og er alls ekki alltaf af völdum baktería). Þetta getur leitt til þess að öll þrjú líffærin bólgni á sama tíma. Þetta sjúkdómsástand er kallað feline triaditis.

Einkennin eru svipuð hvort sem eitt eða fleiri þessara líffæra bólgna; viðvarandi uppköst og niðurgangur ásamt þyngdartapi. Einnig geta orðið breytingar á matarlyst og stundum eykst hún gríðarlega því þá er kötturinn að reyna að ná í næringarefnin sem fóru forgörðum í uppköstum og niðurgangi.

Það er hægt að ná tökum á þessu ástandi. Dýralæknirinn gengur úr skugga um að sníkjudýr séu ekki orsakavaldurinn áður en hann ávísar lyfjum og mælir með sérstöku fóðri fyrir köttinn þinn.

Meltingarfærasjúkdómar eru hvimleiðir, bæði fyrir þig og köttinn þinn. Þess vegna skaltu fara með köttinn til dýralæknis um leið og einkenni gera vart við sig. Með því móti veitir þú kettinum þínum bestu hugsanlegu meðferðina.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Maine Coon adult standing in black and white on a white background