Algeng meltingarvandamál hunda

2.10.2018
Hundar geta þjáðst af ýmiss konar meltingarvandamálum, en auðvelt er að greina og meðhöndla nokkur af þeim algengustu. Í þessari grein getur þú kynnt þér einkenni, orsakir og meðferðir við þessum algengu vandamálum.
Adult Dachshund standing on an examination table in a vets office with its owner.

Þótt meltingarkerfi hunda séu oft öflug geta þeir glímt við ákveðin algeng vandamál af völdum sýkinga, mataræðis, lífsstíls og annarra þátta. Einkenni þessara vandamála geta verið vísbendingar um ýmsar mismunandi orsakir, svo mikilvægt er að þú ráðfærir þig við dýralækni til að fá frekari ráðgjöf og meðferð.

Einkenni og orsakir niðurgangs hjá hundum

Ef hundurinn þinn er með niðurgang, mun hann hafa hægðir oftar en venjulega og hægðirnar geta verið lausari í sér. Dýralæknirinn þinn mun geta greint milli niðurgangs vegna vandamála í smáþörmum og niðurgangs vegna vandamála í stórgirni. Hið síðarnefnda veldur venjulega slímkenndari niðurgangi sem hundurinn skilar títt af sér í litlu magni.

Niðurgangur getur stafað af því að hundurinn borði eitthvað sem fer illa í hann, af bakteríu- eða veirusýkingu, ormum eða öðrum sníkjudýrum, eða getur verið vísbending um undirliggjandi sjúkdóm. Hvolpar eru í sérstakri hættu vegna þess að þeir eru með mjög viðkvæmt meltingar- og ónæmiskerfi.

Sníkjudýrasmit getur valdið niðurgangi hjá hundinum, t.d. þráðormar og frumdýr á borð við hnýsildýr (coccidia). Þótt ormahreinsun geti hjálpað til við að losa orma úr meltingarveginum er hundurinn enn í hættu vegna þess að ekki virka allar meðferðir gegn öllum sníkjudýrum.

Hundurinn þinn getur líka fengið niðurgang ef hann er með ofurnæmi fyrir mataræði eða ofnæmi. Magaeinkenni af völdum matarofnæmis eru venjulega þrálátari en niðurgangur, sem orsakast af því að eitthvað óæskilegt var borðað. Ef hundurinn þinn er hins vegar með langvarandi niðurgang skaltu tala við dýralækni áður en þú breytir mataræði hans, þar sem orsakirnar gætu verið margvíslegar.

Meðferð við niðurgangi hjá hundum

Dýralæknirinn gæti ávísað ýmiss konar meðferðum við niðurgangi hundsins, allt eftir því hver undirliggjandi orsök kvillans er. Þetta gætu t.d. verið ormahreinsun, lyf til að meðhöndla sýkingu og breytingar á mataræði, eins og að gefa honum sérfæði til að draga úr álagi á þarma og bæta gæði hægða.

Puppy Poodle standing indoors eating from a ceramic bowl.

Einkenni og ástæður harðlífis í hundum

Ef hundurinn þinn á erfitt með að hafa hægðir gæti hann þjáðst af harðlífi. Ef hundurinn hefur sjaldan hægðir getur það verið merki um harðlífi og sömuleiðis ef hægðirnar eru harðar og þurrar.

Ástæður fyrir harðlífi geta verið hreyfingarleysi, fóður, áfall, nýtt umhverfi og undirliggjandi sjúkdómar.

Meðferð við harðlífi í hundum

Dýralæknir ávísar líkast til hægðalyfi til að losa sem fyrst um stífluna. Hann gæti líka lagt til smávægilega skurðaðgerð ef hann telur ástæðu til. Breytt mataræði getur líka komið lagi á þennan kvilla. Það getur til dæmis verið til bóta að tryggja jafnvægi trefja í fóðrinu. Þá gætu hægðirnar aftur orðið eðlilegar og almennt ástand meltingarkerfisins batnað.

Einkenni og ástæður iðrabólgusjúkdóma í hundum

Líkt og mannfólkið, geta hundar fengið iðrabólgusjúkdóma (IBD). Einkenni geta verið viðvarandi niðurgangur, uppköst og þyngdartap. Einkennin geta ágerst með tímanum.

Því miður er ekki ljóst hvað veldur iðrabólgusjúkdómum í hundum en orsakirnar gætu verið margvíslegar. Þar sem ástæðurnar geta verið margar, byrjar dýralæknirinn á að ganga úr skugga um að eitthvað annað en iðrabólgusjúkdómur ami að hundinum. Fóður getur verið mikilvægur þáttur í bataferlinu.

Meðhöndlun iðrabólgusjúkdóma í hundum

Oft er gripið til þess ráðs að skipta um fóður til að meðhöndla iðrabólgusjúkdóma í hundum. Dregið er úr fitumagni í fóðri auk þess sem auðmeltanlegt hágæðaprótein verður hluti af fæðunni þannig að hundurinn fái nauðsynlega orku án þess að meltingarkerfið verið fyrir óþarfa álagi.

Ef hundurinn þinn sýnir merki um meltingarvandamál skaltu strax hafa samband við dýralækni sem gerir þá nauðsynlegar rannsóknir og ráðleggur þér þá meðferð sem hentar best.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russell Terrier adult standing in black and white on a white background