Algengir sjúkdómar hjá eldri hundum

20.9.2018
Á síðari hluta ævinnar gæti hundurinn þinn byrjað að upplifa eitthvert þessara aldurstengdu einkenna - fáðu frekari upplýsingar um þau og meðferðir við þeim hér.
Ageing English Cocker Spaniel lying down outdoors in a field.

Þegar hundurinn þinn eldist gæti hann farið að þjást af algengum kvillum sem orsakast af því að hægja fer á mikilvægum líffærum og starfsemi líkamans. Þótt þau geti tekið á er hægt að meðhöndla þessi veikindi, svo þú skalt ekki hika við að ræða við dýralækni um leið og einkennin gera vart við sig.

Ský á auga og sjóntap hjá eldri hundum

Ský á auga er kvilli sem öll kyn og stærðir hunda eiga sameiginlegan. Rétt eins og hjá fólki myndast ský á auga hjá hundum þegar frumurnar sem mynda linsuna yfir auganu safnast upp með tímanum og verða að lokum ógagnsæjar. Augun taka þá á sig bláleitan blæ og sjónin fer að versna.

Ský á auga myndast hraðar hjá hundum með sykursýki þar sem skýjamyndunin tengist umframmyndun glúkósa í blóði. Sjálf sykursýkin er algengari hjá hundum sem þjást af offitu og því er það að halda hundinum í kjörþyngd góð leið til að koma í veg fyrir tengda sjúkdóma á borð við ský á auga. Reglulegar heimsóknir til dýralæknisins geta hjálpað til við að greina þennan sjúkdóm snemma. Í 80% tilfella hafa augasteinsaðgerðir sem gerðar eru á fyrstu stigum sjúkdómsins tekist.

Vanvirkur skjaldkirtill hjá eldri hundum

Þetta er algengasti hormónasjúkdómurinn hjá hundum og kemur hann fram þegar skjaldkirtillinn byrjar að veikjast og verða vanvirkur. Þrátt fyrir að orsakir vanvirks skjaldkirtils séu ekki alveg ljósar tengjast þær því að ónæmiskerfi hundsins „ræðst“ á skjaldkirtilinn og skemmir hann, eða orsakast af meðferðum við ofvirkum skjaldkirtli.

Ef roskni hundurinn þinn þjáist af vanvirkum skjaldkirtli mun hann þyngjast þrátt fyrir að mataræði breytist ekki. Hann gæti verið tregur til að hreyfa sig, auk þess sem hann verður slappari og sýnir merki um kvíða. Þetta hefur einnig áhrif á feldinn, sem verður litlaus og þurr auk þess sem hundurinn fer úr hárum. Samhliða þessu verður húðin þykk og fitug auk þess sem hunda fer stundum að klæja meira.

Ageing Golden Retriever sitting in a vets office having an eye examination.

Slitgigt hjá eldri hundum

Slitgigt er algeng ástæða þess að eldri hundar haltra. Hún myndast vegna þess að brjóskið sem umlykur liðina eyðist smám saman. Því miður er engin lækning til við slitgigt því endurnýjun fruma er mjög hæg í gömlum hundum. Meðferð getur þó létt á sársauka og hægt á framgangi sjúkdómsins.

Aumir liðir eða stirðleiki í hreyfingum eru oft álitnir eðlileg öldrunarmerki hunda. Ef þér sýnist hundurinn þinn eiga verulega erfitt með hreyfingar ættir þú að ræða við dýralækni. Hann gæti hjálpað til við að lina þjáningar hundsins þíns.

Of þungir hundar eiga frekar á hættu að fá slitgigt þar sem álagið á liðina er meira. Góð forvörn felst í því að halda hundinum í kjörþyngd. Þú getur líka gætt þess að í fóðrinu séu næringarefni sem eru góð fyrir liðina eins og bólgueyðandi omega 3 fitusýrur. Þú getur einnig gefið hundinum fóður með sérsniðnum næringarefnum sem hafa klínísk áhrif (til dæmis kúrkúmín, kollagen og pólífenól úr grænu tei), glúkósamín og kondróitín.

Eldri hundar og vitræn truflun

Þegar hundurinn þinn eldist er hugsanlegt að þú sjáir breytingar á hegðun hans. Þrátt fyrir að þær megi í sumum tilvikum rekja til öldrunar gæti ástæða breytinganna einnig verið vitræn truflun, en hún herjar á hunda á svipaðan hátt og Alzheimer's-sjúkdómurinn herjar á fólk.

Æðar hundsins hrörna með aldrinum og því minnkar blóð- og súrefnisflæði til heilans. Það hefur áhrif á hegðun þeirra, þeir geta orðið illa áttaðir, hætt að þekkja það sem var þeim vel kunnugt áður og minnið getur versnað. Þeir geta líka átt við svefntruflanir að glíma og geta jafnvel orðið æstir eða viðskotaillir.

Slíkt ástand getur verið mjög bagalegt fyrir hundinn þinn en hægt er að bæta líðan hans. Farðu reglulega í stuttar gönguferðir með hundinn þinn og rifjaðu upp skipanirnar sem þú kenndir honum þegar hann var hvolpur. Dragðu úr streitu með því að fara alltaf í daglegar gönguferðir. Þú gætir hugsanlega viljað gefa honum fóður sem er ríkt af andoxunarefnum því þau vernda frumurnar gegn skaða af völdum sindurefna.

Það er óþarfi að gamli hundurinn þinn þjáist af þessum algengu krankleikum. Pantaðu tíma hjá dýralækni ef þú sérð þessi einkenni þannig að þú getir veitt hundinum bestu mögulegu meðferð.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russell Terrier adult standing in black and white on a white background