Að hjálpa þunga hundinum þínum að léttast

20.9.2018
Offita dregur verulega úr lífslíkum hundsins þíns og skerðir lífsgæði hans. Svona getur þú hjálpað honum að léttast og snúa aftur til heilbrigðra lífshátta.
Adult Jack Russell running on a beach with a ball in its mouth.

Offita er algengt vandamál meðal hunda. Rannsóknir sýna að offita hrjáir að minnsta kosti 20% fullorðinna hunda í iðnríkjunum. Þú getur hjálpað hundinum þínum að léttast og snúa aftur til heilbrigðra lífshátta með réttu fóðri, hreyfingu og matarvenjum.

Offita og hundurinn þinn

Ef hundurinn þinn hefur fitnað og mat dýralæknis er að hann sé akfeitur, þarftu að átta þig á afleiðingunum sem það getur haft á almennt heilsufar hundsins. Offita ógnar heilsu hundsins þíns á mörgum sviðum. Hann er í aukinni hættu á að fá sykursýki, hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, liðagigt og auk þess veikir offita ónæmiskerfi hans. Alvarlegast er þó að lífslíkur hans skerðast.

Líkurnar á því að hundurinn þinn verði of feitur eða léttist ekki auðveldlega, fara eftir tegund, aldri, erfðum, kyni og lífsháttum. Þú verður að átta þig á hlutverkinu sem þú gegnir. Þú átt þess kost að gefa hundinum þínum rétt fóður, sjá honum fyrir viðeigandi hreyfingu og lífsháttum sem stuðla að því að hann komist aftur í gott form og geti lifað heilbrigðu lífi.

Að stjórna matarvenjum hundsins

Það getur haft mikil og góð áhrif að fastsetja ákveðnar venjur og breyta háttalagi í kringum fóðrun hundsins. Dýralæknirinn getur reiknað út fyrir þig hversu stóra fóðurskammta þú átt að gefa hundinum þínum og hvaða fóður hentar honum best til að hann léttist. Gættu þess að fylgja ráðleggingum dýralæknisins til að árangur náist. Þú ættir líka að skipta dagsskammtinum í tvær máltíðir. Þá verður niðurbrot hraðara og nýting orkunnar úr fóðrinu betri. Auk þess hættir hundinum þá síður til að gleypa fóðrið í sig allt of hratt.

Aðrir fjölskyldumeðlimir þurfa líka að vera staðfastir eins og þú. Það þarf að hætta að gefa hundinum aukabita frá matarborðinu eða stuðla að því að hann betli þegar fjölskyldan borðar. Besta leiðin er að gefa hundinum alltaf að borða á sama tíma, úr sömu fóðurskálinni og á sama staðnum svo fóðurvenjurnar komist í fast horf. Ekki borða á sama tíma og hundurinn því það gæti ruglað hann í ríminu. Best er að hundurinn borði ekki í sama herbergi og fjölskyldan.

Adult Irish Terrier running in a garden with a toy.

Rétta fóðrið fyrir hund sem er of þungur

Það kann að virðast einfaldast að gefa hundinum minni fóðurskammta til að létta hann. Það er ekki ráðlegt því þá er ekki víst að hann fái öll nauðsynleg næringarefni og það getur leitt til þess að hann sýni árásargirni eða fari að betla mat.

Betra er að velja fóður sem er sérstaklega hannað til að létta hunda. Í fóðrinu eiga að vera auðmeltanleg prótein svo hundurinn fái þá orku sem hann þarf en ekki jafn margar hitaeiningar og áður. Í besta megrunarfóðrinu er líka sérstök trefjablanda sem gerir að verkum að hundurinn verður saddur án þess að innbyrða of margar hitaeiningar.

Lágkolvetnafóður getur hentað of þungum hundum sem eru með sykursýki því það getur hægt á meltingu og komið jafnvægi á blóðsykurinn. Ef um er að ræða hund sem er of þungur og með sykursýki er hugsanlegt að dýralæknirinn mæli með lágkolvetna sjúkrafóðri. Slíkt fóður getur, ásamt eftirliti dýralæknis, bætt ástand hundsins.

Hreyfing til að létta hundinn

Ef heilsa hundsins leyfir, skaltu fara með hann reglulega út að ganga. Virka daga getur þú farið í stuttar gönguferðir en um helgar getur þú farið í göngur sem reyna meira á hann og jafnvel látið hann hlaupa svo hann venjist því. Ef hundurinn þinn á erfitt með að fara í langar gönguferðir, getur sund haft mjög góð áhrif á hann.

Með því að gera svolitlar breytingar getur þú hjálpað hundinum þínum að komast aftur í kjörþyngd og stuðlað að heilbrigðum lífsstíl. Byrjaðu á að ráðfæra þig við dýralækni og fáðu ráðleggingar hjá honum varðandi fóður, hreyfingu og þessháttar.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russel Terrier adult standing in black and white on a white background