Hvernig annast skal hund

20.9.2018
Það er margt sem þarf að læra þegar þú tekur að þér hvolp í fyrsta skipti, en með því að gefa þér tíma til að skilja þarfir hans frá upphafi tryggirðu betur líkamlega og andlega heilsu hans til framtíðar.
Puppy Beagle running on a sandy beach.

Ýmsir þættir hafa áhrif á heilbrigði og velferð hundsins þíns, sér í lagi aldurinn og af hvaða hundakyni hann er. Þess vegna er mikilvægt að ígrunda alla þætti, t.d. þörf á næringu, æfingu og snyrtingu, út frá sérstökum þörfum viðkomandi hunds. Engu að síður eru einnig ákveðnir þættir sem allir hundar þarfnast til að þeir geti orðið heilbrigðir og góðir fjölskyldumeðlimir.

Hreyfing

Allir hundar þarfnast hreyfingar, en það er misjafnt eftir aldri, stærð og hundakyni hvers konar hreyfingu þeir þurfa og hversu mikla.

  • Tryggðu að tími gefist til góðrar hreyfingar: Gönguferð með hundinum má ekki bara verða örstutt ferð til að pissa.
  • Lítið og oft: Mundu að meðalstórir, stórir og risavaxnir hundar ganga í gegnum lengri vaxtartímabil þegar bein og liðir þroskast. Þess vegna ættu þeir ekki að ganga langar vegalengdir eða taka þátt í ákveðnum íþróttum þar til þeir eru orðnir stærri. Þess í stað ættu þeir að hreyfa sig skemur, en oftar.
  • Gefðu þér tíma til að leika: Leikur er náttúrulegur hluti af hreyfingu hundsins og eflir sálrænan þroska hans. Hann er góður fyrir hundinn þinn á ýmsan hátt: Hundurinn fær mikilvægan tíma með þér, tengslamyndun verður sterkari, þyngdarstjórnun verður auðveldari, úthaldið eykst og hjarta- og æðakerfið styrkist.

Umhverfi

Hvolpar eru mjög móttækilegir fyrir umhverfi sínu og neikvæð reynsla mun hafa varanleg áhrif. Hegðunarþroski hvolps gengur í gegnum nokkur stig. Þar á meðal er félagsmótunartímabilið, sem hefst við fjögurra vikna aldur og stendur yfir til 14 vikna aldurs.

Óttatímabilið er innan þessa félagsmótunartímabils, svo öll áföll sem eiga sér stað á þessum tíma geta haft varanlegar, neikvæðar afleiðingar. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast vel hvernig hvolpurinn upplifir umhverfi sitt frá fyrsta degi.

  • Gefðu honum sitt eigið rúm: Tryggðu að hann hafi sitt eigið rúm sem hann getur hörfað í og fundið fyrir öryggi.
  • Veittu örvandi umhverfi: Til dæmis finnst hvolpum frábært að hafa stóra pappakassa til að fela sig í og gúmmíleikföng til að naga. Það er mikilvægt að passa að allir leiktímar fari fram undir eftirliti.
  • Kynntu hann hægt og rólega fyrir nýju umhverfi: Ef þú býrð í borg ættirðu að kynna hann smám saman fyrir hlutum sem hann mun þurfa að venjast, eins og t.d. bílum, rúllustigum, lyftum, lestum, sporvögnum eða strætisvögnum.
  • Þjálfaðu hann í að vera einn: Hvolpurinn verður líka að læra að vera stundum einsamall.
  • Kynntu hann fyrir öðrum hundum: Við félagsmótun þurfa hvolpar að hitta aðra hunda og önnur dýr og vera eins mikið og hægt er með í för þegar fjölskyldan fer eitthvað saman.
  • Farðu með hann út: Ekki bíða með að fara með hvolpinn út. Hann verður að byrja að kanna umhverfi sitt frá tveggja mánaða aldri.
Puppy Golden Retriever lying down inside while chewing a toy.

Fóðrun

Rétt eins og hreyfiþörfin, breytist næringarþörfin eftir því sem hvolpurinn vex. Í byrjun þurfa hvolpar að fá nokkrar litlar máltíðir á dag sem smám saman er fækkað í eina eða tvær máltíðir. Stærð hundsins þíns og tegund hafa líka áhrif á næringarþörf hans því meltingarkerfið virkar ekki eins í öllum hundum. Hundar ættu alltaf að hafa aðgang að vatni og það er mikilvægt að offóðra þá ekki.

Ef þú ert í vafa um skammtastærðir og hvernig þær breytast með aldrinum, skaltu leita ráðlegginga hjá dýralækni. Dýralæknar vita hver eðlilegur vaxtarhraði er og geta gefið þér ráð til að koma í veg fyrir að hundurinn fitni of mikið með viðeigandi álagi á liðina.

Fóðrið er orkugjafi en það þarf líka að næra frumur líkamans og viðhalda þeim. Það þarf einnig að koma í veg fyrir vandamál í meltingarvegi, húð, tönnum og liðum ásamt því að vernda dýrið fyrir aldurstengdum vandamálum. Í næringarríku fóðri sem uppfyllir næringarþörf, er nákvæmlega rétt samsetning af næringarefnum.

  • Ekki breyta fæðinu skyndilega: Til að varna því að hvolpurinn fái meltingartruflanir fyrst eftir að hann kemur heim, skaltu halda áfram að gefa honum fóðrið sem hann er vanur. Ef þú vilt skipta um fóður, getur þú gert það smám saman á einni viku. Þá blandar þú smám saman meira af nýja fóðrinu við gamla fóðrið.
  • Fáðu réttan mat miðað við aldur: Sérstakt hvolpafóður sem er aldursmiðað, fullnægir næringarþörf hvolpa meðan þeir eru að vaxa. Fylgdu ráðleggingum dýralæknisins þíns til að hvolpurinn vaxi eðlilega.
  • Komdu upp rútínu: Hundar eru hópdýr sem þurfa að hafa skýra virðingarröð. Gefðu hvolpinum þínum alltaf að borða á sama stað, á sama tíma og eftir að fjölskyldan er búin að borða. Þá áttar hvolpurinn sig á því að þið ráðið ríkjum á heimilinu. Forðastu að láta hvolpinn hoppa í einn eða tvo klukkutíma eftir að hann borðar.
  • Gerðu nammi að undantekningu, ekki reglu: Nammibita á að gefa í undantekningartilvikum svo hvolpurinn haldist í kjörþyngd. Sykur og súkkulaði eru á bannlista og súkkulaði er eins og eitur fyrir hunda. Þú getur notað megrunarfóðurkúlur við þjálfun.

Snyrting og heilbrigði

Það er góð venja að snyrta hvolpinn reglulega. Snyrtingin viðheldur heilbrigði felds og húðar auk þess að styrkja tengslin milli ykkar. Reglubundin snyrting eykur líka líkurnar á að þú komir fljótt auga á eitthvað athugavert hjá hvolpinum eins og útvortis sníkjudýr, húðsjúkdóm eða óþægindi einhvers staðar í líkamanum. Flestir hundar eru ánægðir með að láta snyrta sig ef þeir venjast því frá unga aldri en það er aldrei of seint að byrja!

  • Byrjaðu tannhirðu á unga aldri: Þá venst hvolpurinn því að tennur hans séu burstaðar. Notaðu tannbursta og tannkrem sem er sérstaklega ætlað hundum. Burstaðu helst tennur hvolpsins nokkrum sinnum í viku.
  • Bókaðu bólusetningar: Bólusetningar verja hvolpinn gegn smitsjúkdómum sem í sumum tilvikum geta verið banvænir. Skylt er að bólusetja við ákveðnum sjúkdómum en aðrar bólusetningar eru valkvæðar. Hvolpar fá oftast fyrstu bólusetningarnar þegar þeir eru sex til átta vikna.
  • Spurðu dýralækninn þinn um ormahreinsun: Hvolpar eru oft með orma og það er rétt að ormahreinsa þá mánaðarlega fram að sex mánaða aldri og á sex mánaða fresti eftir það. Dýralæknirinn ráðleggur þér varðandi ormahreinsun og það er mikilvægt að þú farir að ráðum hans.
  • Spurðu dýralækni þinn um flóavarnir: Mundu að verja hvolpinn þinn gegn flóm og mítlum. Til að komast fyrir útvortis sníkjudýrasmit þarf að meðhöndla hundinn og umhverfi hans. Fáðu ráð hjá dýralækninum þínum.
  • Íhugaðu að vana gæludýrið þitt: Þetta er mikilvæg ákvörðun sem ætti að ígrunda vel. Það er mikilvægt að meta kosti og galla ófrjósemisaðgerðar og vega þá síðan á móti möguleikum á að rækta undan hundinum þínum í framtíðinni.

Þjálfun

Byrja þarf snemma að kenna góða hegðun og hlýðni. Hvolpar eru námfúsir að upplagi og þú ættir því að byrja að þjálfa hvolpinn þinn eins fljótt og auðið er.

Hundurinn þinn þarf að skilja ákveðnar grundvallarreglur til að þér og öðrum líði vel í návist hans. Hikaðu ekki við að fá aðstoð hundaþjálfara við þjálfun hundsins þíns. Margir hundaskólar eru starfræktir þar sem þú getur fengið aðstoð við þjálfunina.

  • Að húsvenja: Ólíklegt er að hvolpurinn sé húshreinn þegar hann kemur til þín. Það tekur tíma að venja hvolpinn á að gera þarfir sínar úti og þú þarft að sýna honum þolinmæði. Aldrei refsa hvolpi eða skamma hann ef honum verður á að gera þarfir sínar inni. Finndu frekar leiðir til að koma í veg fyrir að hann þurfi nokkurn tímann að gera þarfir sínar innan dyra.
  • Byrjaðu snemma að kalla hann til þín: Segðu nafnið hans hægt og skýrt frá upphafi til að ná athygli hans og tengdu nafnið hans við fyrirmæli sem þú gefur honum. Þjálfaðu hann þegar hann er vökull þannig að hann kynnist þér vel. Bjóddu honum að koma til þín svo hann læri að hlýða.
  • Láttu hann venjast bílnum smám saman: Vendu hvolpinn þinn frá unga aldri á að fara í bíl svo það verði ekkert tiltökumál. Farðu í stutta bíltúra með hann áður en þú ferð með hann í langferð.

Upplýsingaflæðið er mikið þegar þú tekur að þér hvolp í fyrsta sinn. Þar á meðal er allt sem þarf að hafa í huga til að tryggja andlega og líkamlega hreysti en ef þú breytir rétt strax í byrjun verður allt einfaldara fyrir ykkur í framtíðinni. Ef þú hefur einhverjar efasemdir getur dýralæknirinn þinn áreiðanlega gefið þér góð ráð.

Efst á síðu

Lesa meira um hundategundir

Leita að tegund

Skoða allar tegundir
Dachshund puppy jumping in black and white on a white background