Atriði sem þarf að huga að áður en þú færð þér hund

20.9.2018
Það mun alltaf breyta lífi þínu að fá þér hund, en með því að spyrja réttu spurninganna áður en þú velur nýja gæludýrið þitt geturðu betur metið hvort fullorðinn hundur eða hvolpur hentar þér.
Adult Golden Retriever walking on a street with adult and child walking behind.

Margs konar atriði geta haft áhrif á bæði hvort þú viljir eignast hund eða hvolp og líka hvaða hundakyn þú viljir fá þér og hvort best sé fyrir þig að fara í hundaathvarf eða til ræktanda. Lykilspurningin er þó alltaf hvort núverandi lífsstíll þinn henti fyrir það að fá hund á heimilið, hvort þú þurfir að gera einhverjar breytingar og hvort þú sért tilbúin/n til að gera þær.

Spurningar sem þú ættir að íhuga áður en þú færð þér hund:

 • Áttu börn? Ef svo er, hvað eru þau gömul? Þú gætir þurft að gefa þér tíma til að fræða ung börn um hvernig eigi að haga sér í kringum hund. Þú gætir líka þurft að íhuga hvar hundurinn muni vera ef þú ert ekki alltaf til staðar, vegna þess að ekki ætti að skilja ung börn eftir ein heima með honum.
 • Áttu önnur gæludýr? Ef svo er, hvernig gætu þau brugðist við nýja hundinum? Það er nauðsynlegt að kynna hund fyrir núverandi gæludýrum smám saman.
 • Ertu með garð? Ef svo er, er hann öruggur? Kannaðu hvort göt séu á girðingunni, eitraðar plöntur séu til staðar eða aðrar hættur. Ef þú ert ekki með garð, hvernig mun hundurinn þá komast út þegar hann þarf að gera stykkin sín?
 • Ertu í fullri vinnu? Ef svo er, muntu þá vera fjarverandi allan daginn og mun einhver annar geta séð um hundinn á meðan - til að hjálpa við að þjálfa hann þegar hann er enn ungur eða fara með hann í göngutúra og tryggja að hann hafi vatn?
 • Ferðast þú mikið? Ef þú ferð oft í frí, mun hundurinn fara með þér og hvað hyggstu gera ef hann getur ekki farið með þér?
 • Getur þú stutt þarfir hundsins fjárhagslega, þar á meðal gæludýratryggingu, mat, dýralæknareikninga og snyrtingu?

Hefurðu tíma fyrir hvolp?

Ein mikilvægasta spurningin sem þú þarft að spyrja þig er hvort þú hafir tíma til að sjá um og þjálfa hvolp. Hvolpar þurfa mikla umönnun og athygli til að tryggja að þeir meiði sig ekki, til að þjálfa þá og hjálpa þeim að aðlagast vel umhverfi sínu.

Til dæmis:

 • Hvolpar þurfa mikinn stuðning við þjálfun og aðstoð við að aðlagast nýju heimili. Eftir því sem hvolpurinn vex mun hann áfram þurfa mikla og reglulega hreyfingu. Ef þú ert fjarverandi allan daginn gæti hvolpur mögulega ekki verið rétti kosturinn fyrir þig.
 • Þjálfunina þarf að hefja eins snemma og mögulegt er, þegar námsgeta hvolpsins er í hámarki frá náttúrunnar hendi. Þetta getur verið gefandi en tímafrekt ferli sem þarf stöðugt að efla og styrkja.
 • Þegar hvolpurinn kemur fyrst á heimilið þarftu að vera til staðar á hefðbundnum fóðrunartímum og fylgjast með hvolpinum á meðan þú húsvenur hann.
 • Af því að hvolpurinn er orkumikill og vill taka þátt í öllu þarf að leika við hann reglulega. Þú þarft að skipuleggja tíma fyrir það, gefa af þér og veita honum athygli. Til dæmis ætti hluti leiktímans að vera með öðrum hundum til að hjálpa honum að læra að umgangast aðra.
Adult Rough Collie sitting down outdoors on a footpath.

Er heimili þitt öruggt fyrir hund?

Það er ekki til neitt ákveðið umhverfi sem hentar hundum. Þú gætir átt börn eða önnur gæludýr á heimilinu. Þú gætir búið í borg eða sveit, íbúð eða húsi. Hvernig sem fjölskylduhagir þínir eru eða húsnæðið sem þú býrð í, er mikilvægt að tryggja öryggi gæludýrsins þíns.

Hvolpar eru sérlega næmir á umhverfi sitt og neikvæð upplifun hefur langvarandi áhrif á þá. Nú til dags búa flestir í þéttbýli og í borgum er oft mikið sjónrænt og hljóðrænt áreiti. Það er mikilvægt að hvolpurinn þinn tengi heimilið ekki við hræðslu eða ónotalegar tilfinningar.

Borgarlífið getur verið örvandi en það getur líka verið yfirþyrmandi fyrir hvolp. Gefðu þér tíma til að venja hann smám saman við umhverfið og ólíkar aðstæður: Bíla, rúllustiga, lyftur og strætisvagna svo eitthvað sé nefnt.

Hvolpurinn þarf líka að læra að vera einn heima án þess að verða hræddur og án þess að verða of hávær eða grípa til skemmdarverka. Smám saman er hægt að lengja tímann sem hann er einn heima.

Huga þarf að:

 • Rafmagnssnúrum sem hvolpurinn gæti komist í.
 • Gluggum, svölum, tröppum og öðrum stöðum þar sem hvolpurinn gæti fest sig eða dottið.
 • Margar algengar heimilisvörur geta verið eitraðar eða hættulegar fyrir gæludýr, til dæmis hreingerningavörur, áfyllingar fyrir rafrettur, lyf, kemískur áburður, beitt áhöld, illgresiseyðir og skordýraeitur.
 • Holur og útgönguleiðir úr garðinum, eitraðar plöntur.
 • Eitraðar plöntur eins og fíkjutré, alpafjóla, kristþyrnir, mistilteinn, kærleikstré, blaðlilja, páskalilja, hýasinta, íris, stofurós (glóðarrós), alparós, lárviðarrós og baunagras.

Það getur verið mjög gefandi að fá hund inn á heimilið og langt og traust samband myndast yfirleitt milli hunds og eiganda. Ef þú tryggir að heimilið sé öruggt og að lífshættir þínir fari saman við heilbrigði og öryggi hundsins, eru auknar líkur á að ykkur takist að eiga langt og farsælt líf saman.

Efst á síðu

Lesa meira um hundategundir

Leita að tegund

Skoða allar tegundir
Dachshund puppy jumping in black and white on a white background