Að kynna hunda fyrir köttum og öðrum gæludýrum

20.9.2018
Þegar komið er með nýjan hvolp inn á heimili þar sem önnur gæludýr búa, þarf að virða þarfir beggja til að sambúðin verði farsæl.
Adult Dachshund lying down on a rug with a black and white cat.

Hundar vilja gjarnan hafa ákveðna virðingarröð í samskiptum. Til að dýrin á heimilinu geti búið saman í sátt og samlyndi þurfa þau þess vegna að koma sér saman um hlutskipti hvers og eins og stað í virðingarröðinni.

Þegar að því kemur að kynna nýja hvolpinn fyrir dýrum sem eru fyrir á heimilinu þarf að taka tillit til allra til að halda friðinn og stuðla að farsælli sambúð.

Að finna út hvort dýrin eiga samleið

  • Talaðu við ræktandann eða starfsmann í athvarfinu: Áður en þú ferð heim með hvolpinn skaltu ræða við ræktandann eða starfsmann í athvarfinu um hvernig umhverfisþjálfun hvolpsins verður best háttað. Fáðu upplýsingar um hvernig hvolpurinn er innan um aðra hunda og, ef þú hefur kött á heimilinu, hvort hann hefur hitt kött.
  • Byrjaðu viðkynninguna áður en þú kemur heim með hvolpinn: Áður en hvolpurinn kemur heim, getur verið gott að láta hann fá teppi eða leikfang heiman frá þér svo hann venjist lyktinni af dýrunum sem eru á heimilinu.
  • Fáðu upplýsingar um fortíðina Ef þú ætlar að taka að þér hund úr athvarfi skaltu ræða við starfsfólk athvarfsins um þau dýr sem þegar búa á heimilinu hjá þér og fá upplýsingar um hvernig hundinum semur við önnur dýr.
  • Gefðu honum tíma: Kynntu dýrin smám saman hvert fyrir öðru og ekki reikna með að þeim lyndi strax vel. Það tekur dýrin sem voru fyrir á heimilinu tíma að sættast við nýja fjölskyldumeðliminn. Að sama skapi þarf hundurinn tíma til að aðlagast nýjum aðstæðum og hinum dýrunum.

Að kynna hvolpinn fyrir hundum á heimilinu

  • Gefðu þér tíma til að kynna hvolpinn fyrir hundunum sem þegar búa á heimilinu: Þegar þú kemur heim með hvolpinn í fyrsta sinn, skaltu fara með hann á rólegan og öruggan stað í húsinu, til dæmis lítið herbergi. Ekki leyfa öðrum gæludýrum að koma þangað heldur skaltu leyfa hvolpinum að venjast nýja umhverfinu smám saman.
  • Fylgstu með þegar dýrin hittast Ábyrgur fullorðinn aðili ætti alltaf að vera viðstaddur þegar nýr hvolpur eða hundur er kynntur fyrir gæludýrum sem búa á heimilinu.
  • Láttu þá hittast á hlutlausum stað: Byrjaðu að kynna hundana á hlutlausu svæði utan heimilisins. Hafðu báða hundana í taumi, þú þarft að hafa fulla stjórn á þeim báðum. Leyfðu þeim að þefa af hvor öðrum.
  • Sýndu þolinmæði: Ekki hækka róminn við eldri hundinn þótt hann hegði sér ekki eins og þú vilt. Gefðu honum svigrúm til að kynnast nýja hundinum.
  • Hafðu báða hundana í taumi: Þegar þeir virðast orðnir sáttir hvor við annan, skaltu ganga með þá saman í taumi og láta þá verða samferða inn. Ekki taka taumana af þeim. Þú gætir þurft að stoppa þá af og það er mun auðveldara að ná stjórn á hundum með taum, ekki síst ef þeir fara að slást.
  • Bíddu þar til þér finnst þeir sáttir: Þegar þú ert viss um að hundarnir séu sáttir hvor við annan, getur þú tekið taumana af þeim meðan þeir eru innan dyra.

Adult Welsh Corgi Cardigan standing outdoors being introduced to a white dog.

Helstu ráð til að gera sambúðina friðsamlega

  • Hafðu sérstaka aðgát á tíkum: Burtséð frá því hvað fólki finnst hefur það komið í ljós að tíkur eru árásargjarnari en hundar og erfiðara er að stöðva bardaga þeirra.
  • Leyfðu þeim að ákvarða stigveldi sitt: Leyfðu þeim að koma sér upp eigin samskiptaháttum og gefðu ríkjandi hundinum forgang. Hundar eru hjarðdýr að eðlisfari og þurfa að hafa skýrt afmarkaða stöðu innan hóps.
  • Fylgstu vel með á matmálstímum: Slagsmál hunda eiga sér oftast stað á matmálstímum þar sem þeim fylgir ákveðin samkeppni. Þegar slíkt kemur upp skaltu veita ríkjandi eða árásargjörnum hundi forgang. Þú gætir jafnvel viljað fóðra hundana á aðskildum svæðum.

Að kynna nýja hvolpinn fyrir heimilisköttunum

Ef kötturinn sem þú átt fyrir þekkir hunda og líkar vel við þá verður ferlið mun auðveldara, en meðal þess sem þú getur gert til að allt gangi vel fyrir sig er að:

  • Tryggja rólegheit og halda öruggri stjórn: Hafðu hundinn í taumi og haltu honum rólegum við fyrstu kynni. Ekki gleyma að verðlauna hundinn fyrir að halda ró sinni.
  • Tryggðu nægilegt pláss: Gakktu úr skugga um að kötturinn geti ekki króast af úti í horni og veldu herbergi þar sem honum líður vel og hann getur fundið felustaði. Best er ef hann getur komist á staði sem eru ofar en hundurinn nær.
  • Gefðu honum tíma: Ekki reyna að neyða köttinn þinn til að hitta nýja hundinn, láttu hann nálgast á þeim hraða sem hann kýs.

Að kynna ný gæludýr fyrir þeim sem fyrir eru tekur tíma og sambandið verður ekki alltaf auðvelt strax frá byrjun. En með því að spyrja um skapgerð og fyrri reynslu nýja hundsins þíns áður en þú tekur hann heim, og með því að virða þarfir bæði hans og gæludýranna sem fyrir eru á heimilinu, geturðu smám saman áttað þig á hvernig samskiptin munu ganga þeirra á milli og stuðlað betur að farsælu og friðsælu sambandi.

Efst á síðu

Lesa meira um hundategundir

Leita að tegund

Skoða allar tegundir
Dachshund puppy jumping in black and white on a white background